Umhverfi

Við erum mjög meðvituð um umhverfisáhrif starfsemi okkar og það hefur alltaf verið einlæg stefna okkar að lágmarka þau áhrif, bæta stöðugt árangur í umhverfismálum og gera umhverfisvernd hátt undir höfði í allri okkar starfsemi.

Hópbílar hafa vottað umhverfisstjórnunarkerfi skv. ISO 14001 og voru árið 2003 með fyrstu fyrirtækjum landsins til að innleiða það. Okkur finnst mikilvægt að starfsemin sé í eins mikilli sátt við umhverfið og hægt er.

Umhverfisstefna Hópbíla

Hópbílar hafa sett sér þau markmið að:

 • Endurskoða Umhverfisstefnuna reglulega og vinna að stöðugum umbótum á umhverfisstjórnunarkerfi fyrirtækisins
 • Stuðla að mengunarvörnum með því að:
 • – Vakta mikilvæga umhverfisþætti í starfsemi fyrirtækisins.
  – Lágmarka og flokka úrgang sem fellur til hjá fyrirtækinu.
  – Draga úr mengandi útblæstri frá bílum fyrirtækinu.
 • Stuðla að sjálfbærri þróun með minni notkun hráefna, endurnýtingu og endurnotkun.
 • Velja birgja með hagsmuni umhverfisverndar að leiðarljósi.
 • Haga starfsemi fyrirtækjanna í samræmi við gildandi lög og reglur um umhverfismál sem og að fylgjast vel með breytingum á lögum og reglugerðum.
 • Efla umhverfisvitund starfsmanna með fræðslu og þjálfun og hvatningu um að framkvæma verk sín á umhverfisvænan hátt.
 • Sjá til þess að fyrirtækin uppfylli kröfur alþjóðlega umhverfisstjórnunarstaðalsins ISO 14001:2015.
 • Leggja áherslu á að starfsmenn og hagsmunaaðilar þekki umhverfisstefnuna og séu þátttakendur í að framfylgja henni.

Hópbílar eru fyrirtæki sem með starfsemi sinni geta haft neikvæð áhrif á umhverfið og eru háð lögum og reglugerðum um umhverfismál. Með þetta í huga nota Hópbílar umhverfisstjórnunarstaðalinn ISO 14001 sem leiðarvísi í allri sinni starfsemi.

Öryggi

Öryggi er veigamikill þáttur í starfsemi Hópbíla. Árið 2014 var innleitt vottað öryggisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðastaðlinum OHSAS 18001. Ávallt er unnið markvisst í að efla öryggi og heilsu starfsmanna jafnt sem farþega og hefur öryggisvitund fest sig vel í sessi hjá okkar starfsmönnum. Það eru öryggisbelti í hverju sæti í öllum okkar bílum. Allir bílar eru ávallt útbúnir með tilliti til aðstæðna og síðast, en ekki síst, má nefna að allir bílar fara í reglubundið eftirlit á verkstæði okkar.

Öryggis- og heilsuverndarstefna Hópbíla

Hópbílar er fyrirtæki sem er umhugað um öryggi og heilsu starfsmanna og farþega. Fyrirtækið vill vera leiðandi á þessu sviði og leitast því við að bjóða upp á hæfa og vel þjálfaða bílstjóra og nýlega bíla. Með því er stuðlað að öryggi og þægindum eins og best verður á kosið.

Hópbílar hafa sett sér þau markmið að:

 • Endurskoða Öryggis- og heilsuverndarstefnu fyrirtækjanna reglulega og vinna að stöðugum umbótum á sviði heilsu- og öryggismála.
 • Efla öryggisvitund starfsmanna og annara hagsmunaaðila með:
 • – Reglulegri fræðslu
  – Hvatningu til starfsmanna að framkvæma verk sín á öruggan hátt
  – Veita starfsmönnum, verktökum og gestum leiðsögn og þjálfun í heilsuverndar- og öryggismálum
 • Greina áhættuþætti í vinnuumhverfi starfsmanna og vinna að úrbótum til áhættuminnkunar
 • Stefna á slysalaust vinnuumhverfi þ.e.a.s að starfsmenn slasist ekki eða verði fyrir heilsufarslegu tjóni við vinnu sína
 • Ástunda virka atvikaskráningu með áherslu á skráningu næstum slysa
 • Velja birgja og verktaka með tilliti til frammistöðu þeirra í öryggismálum
 • Fylgjast vel með þeirri þróun sem á sér stað á lagaumhverfinu m.t.t. heilsu- og öryggismála og fylgja í hvívetna þeim kröfum sem gerðar eru hverju sinni
 • Fyrirtækin uppfylli kröfur alþjóðlega heilsu- og öryggisstaðalsins OHSAS 18001
 • Starfsmenn þess og hagsmunaðilar þekki öryggis- og heilsuverndarstefnuna og séu þátttakendur í því að framfylgja henni

Mannauður

Hópbílar leitast ávallt við að ráða til sín hæfasta starfsfólk sem völ er á. Reynt er að hafa starfsumhverfi þannig að starfsfólki líði vel í vinnu og félagið leggur sitt af mörkum til stuðnings félagslífi starfsmanna. Allt í þeim tilgangi að skapa góðan starfsanda. Vinnustaðagreiningar eru framkvæmdar reglulega sem og úttektir á vinnuaðstöðu. Hópbílar styðja og styrkja heilsueflingu starfsmanna sinna.

Hópbílar hafa sett sér þau markmið að:

 • Leggja áherslu á að ráða til starfa hæfasta starfsfólkið sem völ er á hverju sinni sem og áhugasamt starfsfólk með menntun og reynslu sem er best til þess fallið að uppfylla þarfir og óskir viðskiptavinanna.
 • Fylgja ávallt gildandi kjarasamningum og túlka ákvæði þeirra með hliðsjón af hagsmunum fyrirtækisins og starfsfólksins.
 • Leitast við að gefa starfsfólki tækifæri á starfsþróun með markvissri fræðslu og þjálfun.
 • Stuðla að því að umhverfi og aðstæður tryggi öryggi og vellíðan starfsfólks við vinnu.
 • Starfsfólk skal sinna störfum sínum af heiðarleika, vandvirkni og ábyrgð.

Einelti og áreitni

Það er Hópbílum mikilvægt að tryggja í alla staði öruggt starfsumhverfi á starfsstöðvum félagsins. Það er sameiginlegt verkefni stjórnenda og starfsmanna að stuðla að fyrirbyggjandi aðgerðum til að draga úr líkum á að einelti eða áreiti vðhafist á vinnustaðnum. Upplifi starfsmenn eða verði vitni að slíku athæfi skal undireins bregðast við samkvæmt sérstakri viðbragðsáætlun sem allir stjórnendur þekkja.

Öruggt starfsumhverfi

Hópbílar nota eftirfarandi skilgreiningar úr reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum:

Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta.

Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Hópbílar hafa sett sér þau markmið að:

 • Fræða alla starfsmenn um hvað kynferðislegt ofbeldi og einelti sé, hvað í því felst og hvert birtingaformið getur verið
 • Tryggja góð samskipti á vinnustaðnum með upplýsingagjöf, opinni umræðu, kurteisi og virðingu.
 • Stuðla að umburðarlyndi gagnvart þjóðerni, fötlun, kynhegðun, kynferð eða öðru sem kann að aðgreina starfsmann frá öðrum í starfshópnum
 • Stuðla að jákvæðum starfsanda, sjálfstæði í starfi og möguleikum starfsmanna að hafa áhrif á starfið.
 • Fylgja viðbragðsáætlun og tryggja nauðsynlega eftirfylgni komi atvik upp.
 • Lágmarka fjarveru starfsmanna komi upp mál sem tengjast kynferðislegu ofbeldi eða einelti með því að bjóða upp á aðstoð utanaðkomandi aðila til lausnar á málum.
 • Starfsmenn þekki stefnuna og séu þátttakendur í að framfylgja henni.
 • Einelti og kynferðisleg áreitni verða ekki liðin innan fyrirtækjanna. Komi hins vegar upp mál af þessum toga mega gerendur eiga von á skriflegri áminningu, tilfærslu í starfi og hugsanlega uppsögn.

Jafnréttisáætlun

Hópbílar vilja heilshugar stuðla að jafnrétti kynjanna og að kynja- og jafnréttissjónarmiðum verði gert hátt undir höfði í allri starfsemi félagsins. Markmiðið er að gera Hópbíla að eftirsóttum vinnustað fyrir alla, án tillits til kynferðis, aldurs, litarhaftar, þjóðernis eða annara þátta sem aðgreina fólk. Við fylgjum í einu og öllu lögum, reglum og kjarasamningum um jafnrétti og og kjör starfsfólks.

GILDISTÍMI OG ÁBYRGÐ

Jafnréttisáætlun þessi gildir frá 2020 – 2022 og skal hún þá endurskoðuð. Skrifstofustjóri ásamt Gæðaráði skal hafa forgöngu um endurskoðun áætlunarinnar.

Allir stjórnendur félagsins eru ábyrgir fyrir framgangi jafnréttismála, hver á sinni starfsstöð. Skrifstofustjóri ásamt Gæðaráði ber ábyrgð á að jafnréttisáætlun þessari sé fylgt eftir og haldið við.

1. LAUNAJAFNRÉTTI

Tryggja skal að konum og körlum sem starfa hjá félaginu séu greidd sömu laun og að starfsmenn njóti sömu kjara fyrir sömu, jafnverðmæt eða sambærileg störf. Aldrei skal hvika frá því að þau viðmið sem notuð eru við launaákvarðanir stjórnist af jafnréttissjónarmiðum.

Leiðir að markmiði: Rýna og greina laun, launakjör og fríðindi fyrir lok september ár hvert. Komi fram óútskýrður launamunur skal hann leiðréttur strax og því lokið eigi síðar en í árslok.
Í samræmi við lög nr. 56/2017 um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu félögin innleiða og vera búin að öðlast jafnlaunavottun (ÍST 85) fyrir árslok 2022.

Ábyrgð: Skrifstofustjóri, launadeild.

2. LAUS STÖRF, STARFSÞJÁLFUN OG ENDURMENNTUN

Hópbílar eru í eðli sínu karllægur vinnustaður. Leggja skal áherslu á að fjölga konum og skulu öll laus störf standa jafnt konum sem körlum til boða. Tryggja skal að jafnræðis sé gætt varðandi tækifæri starfsmanna til starfsþjálfunar og endurmenntunar.

Leiðir að markmiði: Í öllum auglýsingum um laus störf skal taka skýrt fram að starfið henti konum jafnt sem körlum og/eða sérstaklega hvetja konur til að sækja um. Árlega skal greina hvort konur og karlar séu að fá jöfn tækifæri til starfsþjálfunar og endurmenntunar. Skal þessu lokið í september ár hvert.

Ábyrgð: Skrifstofustjóri, rekstrarstjóri, mannauðsfulltrúi.

3. EINELTI, KYNBUNDIN OG KYNFERÐISLEG ÁREITNI OG OFBELDI

Það er skýr stefna Hópbíla að áreitni og ofbeldi, hverju nafni sem það nefnist, er ekki liðið á vinnustaðnum, sbr. Eineltis- og kynferðisstefnu félagsins.

Áreitni eða ofbeldi varðar formlega áminningu í starfi og sé um alvarlega eða endurtekna áreitni eða ofbeldi að ræða getur það varðað brottrekstri úr starfi.

Leiðir að markmiði: Eineltis- og kynferðisstefnu Hópbíla, sem og Neyðar- og viðbragðsáætlun skal kynna árlega fyrir starfsmönnum. Nýjir starfsmenn fá góða kynningu í nýliðafræðslu.

Komi upp mál tengt áreitni og/eða ofbeldi skal samstundis tilkynna það næsta yfirmanni eða skrifstofustjóra sem strax skulu setja mál í ferli skv. Neyðar- og viðbragðsáætlun. Þolandi skal aldrei bera skaða af ráðstöfunum sem gripið er til.

Skilgreiningar Hópbíla eru í samræmi við 2. gr. laga nr. 10/2008. Jafnframt nær áætlun þessi einnig yfir einelti og ofbeldi sbr. reglugerð nr. 1009/2015.

Einelti: Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.

Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og eða líkamleg.

Kynbundið ofbeldi: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Ofbeldi: Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis.

Ábyrgð: Skrifstofustjóri, rekstrarstjóri, mannauðsfulltrúi.

4. SAMRÆMING FJÖLSKYLDU- OG ATVINNULÍFS

Leitast skal við að gera starfsfólki kleift að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf með sveigjanlegum vinnutíma þar sem því verður við komið. Starfsfólki skal sýndur skilningur vegna mismunandi fjölskylduaðstæðna, t.d. vegna veikinda barna og umönnunar aldraðra foreldra. Óheimilt er að láta fæðingar- og foreldraorlof, eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði, hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir um framgang í starfi, endurmenntun, uppsögn, vinnuaðstæður og fleiri slíka þætti sem fram koma í jafnréttislögum. Leitast skal við að halda yfirvinnu starfsfólks innan hóflegra marka.

Leiðir að markmiði: Bjóða starfsfólki sveigjanlegan vinnutíma innan þeirra marka sem viðkomandi starf krefst. Bílstjórar skulu ávallt virða lögbundinn hvíldartíma. Halda skal yfirvinnu innan hóflegra marka þannig að hún hafi ekki áhrif á fjölskyldulíf. Fylgjast skal með þessu í mánaðarlegum launakeyrslum og bregðast við með endurskipulagningu starfs ef þurfa þykir.
Kynna skal starfsmönnum rétt sinn til fæðingar- og foreldraorlofs og hvetja jafnframt karla til að nýta þann rétt og jafnframt að vera heima hjá veikum börnum til jafns við konur.

Ábyrgð: Skrifstofustjóri, launadeild, mannauðsfulltrúi.