Í október mánuði voru árlegir bílstjórafundir á dagskrá. Fundunum er skipt upp eftir tegund aksturs. Þannig er einn fundur haldinn fyrir bílstjóra í rútudeild, einn fyrir Akstursþjónustubílstjóra í Hafnarfirði, einn fyrir þá sem veita sömu þjónustu í Reykjavík auk þess sem fundað er með bílstjórum á landsbyggðinni bæði á Selfossi og í Borgarnesi. Landsbyggðarfundirnir munu líklega verða haldnir í janúar á næsta ári.
Á fundunum í október var farið yfir mikilvægi innskráningar (log-in) í hverja bifreið við upphaf hverrar ferðar, stundvísi, vinnutíma og úthlutun verkefna, gæðaeftirlit og þrif á bílum, tímaskýrslur og útlagaðan kostnað, reglur um farsímanotkun og tóbaksnotkun og veittar upplýsingar um nýjan fatnað sem dreift verður á næstunni. Þá var rætt um ábyrgð í starfi bílstjórans og mikilvægi faglegra samskipta og viðmót.
Bílstjórar fengu einnig kynningu á Traffilog kerfinu en stærri kynning á því kerfi verður fyrir alla bílstjóra þann 21. nóvember næstkomandi. Komið var inn á mikilvægi lykilframmistöðu (Key Performance Indicator) innan heildarinnar, mikilvægi þess að veita framúrskarandi akstri athygli, frammistöðumælingar, meðvitund um jarðvænan akstur og að bílstjórar geri sér grein fyrir að þægilegur akstur minnkar útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

Á fundunum var bílstjórum gerð grein fyrir mikilvægi þátttöku þeirra í HR Monitor könnunum sem fyrirtækið leggur fyrir. Í þeim könnunum safnast mikilvægar upplýsingar um starfið og starfsemina, rýnt er til gagns og áætlanir um úrbætur gerðar þar sem þeirra er þörf. Hvatning og hrós berast síðan að sjálfsögðu líka.
Öll störfum við innan sömu liðsheildar og berum virðingu fyrir starfinu, starfsfélögum og fyrirtækinu okkar. Við berum sameiginlega ábyrgð á jákvæðu viðmóti og viðhorfi, erum tilbúin að veita og taka við heiðarlegri endurgjöf, sýnum fagmennsku og fagvitund í öllu starfi og metnað til að gera betur á degi hverjum.